„Það þarf að stráfella
þessi helvítis kvikindi“

Sverrir Agnarsson, formaður félags múslima, segir að skrímslavæðing múslima sé orðin að iðnaði sem græðir á óttanum. Sjálfur verður hann fyrir holskeflu fordóma og hótana í hvert sinn sem hann tjáir sig opinberlega, en hér á landi grasserar ný-rasismi í lokuðum umræðuhópum á netinu, þar sem fólk tjáir sig óhikað um löngun til þess að útrýma múslimum eða beita þá ofbeldi. Stundin ræddi við fólk í þessum hópum.

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir
ingibjorg@stundin.is

María Henley er 70 ára gömul kona í Kópavogi sem liggur ekki á skoðunum sínum á internetinu. Skoðanir hennar eru ekki allra og þær hafa valdið togstreitu innan fjölskyldunnar. María er nefnilega meðlimur í Facebook-hópum eins og Mótmælum mosku á Íslandi. Hópurinn er leynilegur en þar safnast saman einstaklingar sem hafa andúð á múslimum og láta það í ljós.

Vill þetta ekki til landsins
Vill þetta ekki til landsins María segist ekkert hafa á móti þeim múslimum sem eru þegar komnir til Íslands, en óttast að með nýrri mosku streymi hingað morðóðir brjálæðingar. Mynd: Eyþór Árnason

Alls eru 499 meðlimir í hópnum en umræðan virðist fyrst og fremst ganga út á það að deila frásögnum og myndböndum af ódæðisverkum múslima víðs vegar um heiminn. Við þessar frásagnir spinnast svo umræður sem oftar en ekki einkennast af heift. Það er til dæmis algengt að fólk annað hvort hvetji til ofbeldis gegn múslimum eða lýsi löngun sinni til þess að beita múslima ofbeldi, jafnvel útrýma þeim. Páll Hilmarsson hefur fylgst með þessum hópum og safnað saman athugasemdum sem þar birtast, en blaðamaður Stundarinnar ræddi við þetta fólk. 

María er ein þeirra sem lætur ýmsilegt flakka á netinu. Börn hennar og barnabörn hafa beðið hana um að senda ekki á sig efni af netinu, en hún lætur það ekki á sig fá. „Núna er ég frjáls,“ útskýrir María. „Ég gæti ekki talað svona ef ég væri enn á vinnumarkaði en mér fannst ég svo frjáls að geta sagt allt þegar ég hætti að vinna.“

Fjölskyldan ósátt

Aðspurð hvað valdi því að hún sé meðlimur í þessum hópum segist hún þekkja til múslima á Íslandi. Hún eigi bæði dótturdóttur og sonardóttur sem gangi báðar í skóla með stúlkum sem eru íslamstrúar. „Þær segja báðar að þessar stelpur séu bara venjulegar eins og þær. Ég reyndi að koma þeim í skilning um að það sé ósköp eðlilegt að þær séu venjulegar núna, en hvað þegar þær verða fullorðnar?

Þá verða þær neyddar til að giftast múslimum sem gera allan andskotann við þær.

Það er reyndar dálítið langt síðan við höfum rætt þetta, áður en ósköpin dundu yfir í París og Kaupmannahöfn og ég var ein í minni fjölskyldu með þessar skoðanir og þau voru reið við mig, bæði börnin mín og barnabörn. Ég sendi þeim myndbönd og annað efni af netinu en þau báðu mig um að hætta því. Þetta olli togstreitu innan fjölskyldunnar.

Nú þegar þetta er farið að færast nær velti ég því fyrir mér hvort þau séu ekki farin að hugsa öðruvísi. Þau mættu alveg segja mér það.“

„Morðóðir brjálæðingar“

María segist hafa lesið sér til um trúarbrögð og íslam séu hættulegust af þeim öllum. „Ég veit hvað moskurnar þýða. Það úir og grúir af þeim í Bretlandi. Það sagði mér kona sem ég treysti þónokkuð vel og var úti með eiginmanni sínum sem var í námi. Á meðan þurfti hún að vinna úti frá tveimur börnum og þau þurftu að borga allt sjálf. Í sama hverfi var moska og allt fullt af moskuliði – en moska er ekki bara full af prestum heldur er hún einnig full af lögfróðum mönnum, félagsráðgjöfum og öllu sem tjáir að nefna til að hjálpa þessu fólki. Þetta var stjórnstöð múslimanna í hverfinu og þetta fólk gekk um atvinnulaust og þurfti ekki að vinna. Ég geri ráð fyrir því að moska sem myndi rísa hér yrði samskonar miðstöð.“

Áhugi hennar á íslamstrú hefur farið vaxandi á undanförnum árum. „Um leið og þetta fór að verða svona alvarlegt hér. Ég vildi ekki trúa þessu,“ segir og hún spurð hvað hún eigi við svarar hún: „Hefur þú ekki haft neinar fregnir af því sem er að gerast úti í heimi? Maðurinn sem var brenndur í járnbúri. Þegar þeir hafa gengið á röðina af börnum og hálshoggið þau með sveðju. Hvernig þau fara með lítil börn eins og tuskudúkkur, henda þeim á milli sín og trampa á þeim. Þetta eru lítil börn, fallegar sálir. 

Guð minn góður, ég er búin að sjá svo margt agalegt og hryllilegt á netinu. Grimmdin er svo ofboðsleg.

Í Sádí-Arbabíu er svo mikil kvenna- og barnakúgun, að ef konu er nauðgað þá þarf hún að sæta vandarhöggum og fara svo í tukthúsið. Ég hef horft upp á manneskjur sem eru grafnar upp að hálsi, fallegar konur sem reyna að standa með höfuðið hátt því þær ætla ekki að láta beygja sig, en eru grýttar til dauða. Ein blaktaði auganu þegar það var nánast búið að grjótlemja hana í hel og þá var haldið áfram. Þetta er svo mikil villimennska.

Og að heimta að konur gangi í þessum búrkum svo rétt rifar í augu þeirra finnst mér fyrir neðan allar hellur. Vilt þú fá þetta til Íslands? Þetta kemur. Það verður straumur hingað til landsins. Það mun breyta öllu að fá þessa mosku.“

Aðspurð hvort hún viti af því að hér á Íslandi eru tvær moskur, segir hún bara „Jesús.“ Hún hafði ekki hugmynd. „Þú veist að þeir banna allt sem heitir kristið. Fólk má til dæmis ekki ganga með kross um hálsinn. Ég veit ekki hvað þeir eru búnir að tæta niður marga þjóðfána sem eru með krossi, eins og íslenski fáninn. Ég held upp á Ísland. Ég elska Ísland. Ég elska þjóðfánann.“

Hún hefur áhyggjur af straumi múslima til Evrópu. „Mér finnst þetta skelfilegt, alveg skelfilegt. Af því að þetta eru morðóðir brjálæðingar, íslamistar frá ríki íslams, sem trúa allir á það sama: Allah og kóraninn.“

Mynd: Kristinn Magnússon

Verða fyrir áreiti
Verða fyrir áreiti Sverrir segir að múslimar þori ekki að tjá sig um trú sína því í hvert skipti sem þeir geri það þá verði þeir fyrir aðkasti og áreiti. Margir hafi upplifað að börn þeirra lendi í vandræðum í skólanum.

Segir þá ekki eiga skilið að lifa

María hefur verið ansi virk í þessum lokaða Facebook-hóp Mótmælum mosku á Íslandi. Eitt af því sem hún hefur tekið undir þar er að hælisleitendur eigi að halda sig í húsdýrgarðinum. Raunar tók hún þátt í umræðunum og spurði hvort það væri ekki til aukabúr þar fyrir þetta fólk. „Þetta átti bara við um þessa tvo hælisleitendur sem komu hingað og voru einhverjir misyndismenn. Þetta á ekki almennt við. Ég er ekki algjört kvikyndi. Ég er bara venjuleg manneskja,“ útskýrir hún.

Í öðru tilfelli sagði María: „Ekki það fyrsta né eina sem ... þeir víla ekki fyrir sér að eyðileggja margra alda gamlar minjar. Þetta eru heilalausir og heiladauðir einstaklingar sem eiga ekkert skilið nema að deyja, því miður, það er of gott fyrir þá. Þeir hafa aldrei lært á bók og hvað þá meira og þannig vilja þeir að afkomendur sínir og veröldin sé í framtíðinni.“

Spurð út í þessi ummæli sem voru látin falla við frétt um menn sem voru að eyðileggja fornminjar, segir hún: „Veistu hvað þeir eru að gera þarna úti í Afghanistan og Sýrlandi? Þeir eru að eyðileggja margra alda gamlar minjar síðan löngu fyrir krist. Mér sárnar ofboðslega að sjá það, því þetta verður aldrei bætt. Þarna var vagga mannkyns áður. Til hvers eru þeir að þessu? Til hvers?

Mér finnst þeir ekki eiga það skilið að lifa þegar þeir gera þetta.

Hér er ég, manneskja lengst norður í höfum að hafa miklar áhyggjur af þessu.“

Hún þvertekur fyrir að andúð hennar á múslimum spili þar inn í. „Ég hef áhuga á öllu gömlu. Eina unun mín í lífinu er að lesa og ég les það sem gamalt er.“

Og haturs­áróður gegn múslimum á Facebook.

María les líka greinar sem skrifaðar eru í blöðin og á sína uppáhaldshöfunda þar, Valdimar Jóhannesson og Stefaníu frá Sauðarkróki. „Hún er með dásamlegar greinar því hún hefur ferðast víða og þekkir þetta vel.“

Óttast um Ísland

Fleiri en fjölskyldan hafa gert athugsemdir við veru Maríu í þessum hópum. Salman Tamini, gamall vinnufélagi frá Landspítal­anum, þar sem María var ritari og deildarstjóri, hafði samband og sagðist ekki trúa því að hún væri í þessum hópi. „Ég sagði, ég get ekki annað. En mér hefur oft fundist ómaklega að honum vegið. Ég er ekki sammála öllu sem sagt er á netinu. Sumir viðhafa orðbragð sem ég myndi aldrei láta frá mér fara, alveg hræðileg ummæli.. En mér ofbýður alveg þegar þeir drepa börn. 

Ég er ekki að tala um múslima sem eru á Íslandi og eru flestir blíðir og góðir. Ég er að tala um múslima sem tilheyra öðrum menningarheimi og fremja þessi voðaverk. 

Ég hef heyrt að þeir ætli sér mikið með Ísland, múslimarnir. Þú veist hvað þeir eru búnir að gera í Sýrlandi. Sýrland var bara gott land.

Þetta er á leiðinni til Íslands ef við stoppum það ekki. Ég vil ekki að það sama gerist hér. Ef þeir fá að koma hingað óáreittir munu þeir eyðileggja íslenska þjóð, þeir eyðileggja það sem við eigum af handritunum og eyðileggja þjóðfánann með því að taka krossinn úr honum.“

María hikar og spyr síðan. „Þykir þér ekkert vænt um Ísland?“

Umræðan
Umræðan Ummælin sem fylgja greininni voru látin falla í lokuðum Facebook-hópum, Mótmælum mosku á Íslandi og Á íslam nokkurn tímann heima á Íslandi? Í þessum hópum er fréttum deilt af voðaverkum múslima og viðbrögðin láta yfirleitt ekki á sér standa. Mynd: Facebook
 
Mynd: Facebook
 
Mynd: Facebook
 
Mynd: Facebook
 
Mynd: Facebook
Mynd: Facebook
 

„Skera þetta á háls aftan frá með bitlausum hníf. Skíta svo í strjúpann og staursetja hausinn.“ Þessi athugasemd birtist í Mótmælum mosku á Íslandi, lokuðum hóp á Facebook. 

Ummælin sem vitnað er í hér að ofan skrifaði Karl Löve við frásögn af sýrlenskum manni sem var sagður hafa nauðgað 21 konu og barni á einum mánuði: „#Sweden #RapeJihad Muslim from Syria rapes 21 woman and children in one month and is still up for ...“ Frásögninni er deilt undir þeim formerkjum að það þurfi að læsa inni allar konur og stúlkur.

Fylgir ekki blindrollum

Aðspurður segist Karl Löve hafa látið þessi ummæli falla í reiði, en þau séu ekki lýsandi fyrir lífsskoðanir hans. „Já, elskan,“ segir hann í samtali við blaðamann þegar þessi athugsemd er lesin upp fyrir hann, „þeir sem þekkja mig vita ósköp vel að þetta er ekki bókstafleg hótun.

Þú mátt trúa því ef þú vilt að þetta endurspegli mínar lífsskoðanir, en ég segi náttúrlega nei. Ég er ekki vanur að liggja á skoðunum mínum, ég fylgi ekki blindrollunum sem vilja bara vera sammála síðasta ræðumanni og fara með hópnum.“

Blaðamaður bendir á fjölda ummæla í grúppunni þar sem einstaklingar annað hvort hvetja til ofbeldis eða lýsa löngun sinni til þess að beita ofbeldi. „Því verður ekki beitt að fyrra bragði,“ segir Karl. „En ef þú heldur að ég sitji heima hjá mér þegar þeir fara í kröfugöngur til að heimta að mannréttindi séu tekin af okkur með því að við göngumst undir þeirra skelfilegu miðaldarhugsunarhátt þá verður það aldrei.“

Forréttindin tekin af öðrum

Spurður að því hvað hann eigi við tekur hann „eitt lítið dæmi um það hvernig þetta laumast inn og hvað sleikjugangurinn er orðinn mikill,“ eins og hann orðar það. „Ef það eru 99 nemendur saman í bekk og einn múslimi og hann er með einhverja gikkshætti varðandi mataræði og vill ekki éta svín – finnst þér það ekki brot á mannréttindum annarra að svínakjötið sé tekið af öllum hópnum fyrir hann? Því meiri forréttindi sem þú veitir öðrum, því meira tekur þú af hinum.“

Múslimar eigi ekkert erindi til Íslands. „Ekki eins og þeir hafa hagað sér alls staðar í veröldunni. Það er alveg sama hvað maður reynir að benda þessum bláeygðu jónum hér á dæmin alls staðar í nágrannalöndum okkar.

Það þýðir ekkert að ræða þetta þegar það er bara sagt að ég sé með fordóma og rasisma um leið og ég nefni veruleikann.

Það eina sem fylgismenn þessarar vitleysu gera er að vera með upphrópanir, rugl og uppnefningar. Það þýðir ekkert að ræða við svona fólk, það þarf bara að fara í leikskólana aftur og koma þegar það er orðið fullorðið fólk, með einhverja reynslu.“

Moska
Moska Í Tyrklandi stendur Hagia Sophia sem upphaflega var reist sem kirkja, varð síðan moska og er núna safn. Karl sækir hugmyndir sínar til Valdimars, sem telur að múslimar bruggi launráð í moskum, þar sé boðað jihad, hatur, dauði og tortíming manna af öðrum trúarbrögðum.

„Frelsi einstaklingsins víðsfjarri“

Karli er mikið niðri fyrir þegar hann talar. „Í fyrsta lagi hefur fólk ekki hugmynd um hvað moska er, það ruglar um að það sé bænahús en það er bara þvættingur. Þetta bull segir strax að þetta fólk veit ekki hvern djöfulinn það er að rugla. Ég bendi þér á vefsíðu Valdimars,“ segir Karl og á við Valdimar Jóhannesson, sem heldur úti bloggsvæði þar sem hann fjallar um íslam.

Ein af síðustu færslum Valdimars ber heitið Hvað er moska? Þar segir meðal annars: „Frelsi einstaklings er víðsfjarri eðli íslams. Reglur íslams ráða yfir öllu lífi og hegðun manna. Skyldan til undirgefni við Allah er skilyrðislaus.
Moskan er skóli, dómstóll, æfingastöð, samkomuhús en ekki eingöngu tilbeiðslustaður. Allar moskur eru að fyrirmynd fyrstu moskunnar, mosku Múhameðs í Medína. Þar kvað Múhameð upp dóma, hverja skyldi lífláta, hvernig haga skyldi árásum og stríði.

Moskan var geymslustaður vopna, æfingastöð fyrir stríðsmenn Múhameðs og bardagasveitir voru sendar þaðan til að ræna, rupla, drepa og hneppa í þrældóm, kúga heiminn undir Allah og Múhammeð, - undir yfirráð íslams.

Allar moskur gegna sama hlutverki og moska Múhameðs í Medína. Verkefni moskunnar er oft hulið almennum múslimum. Alkunna er þó að ýmislegt fer fram innan moskanna sem brýtur gróflega gegn þeim samfélögum sem hafa leyft starfsemi þeirra. Vopn hafa iðlulega fundist í moskum. Þar er lagt á ráðin um að kúga löndin undir alræðið og kannanir sýna að í 80% af moskum í Vesturlöndum er boðað jihad, hatur, dauði og tortíming manna af öðrum trúarbrögðum.“

Enginn afdaladrengur

Karl segist læra mikið af Valdimari. „Hann er búinn að sökkva sér ofan í þessi mál og kynna sér þau mjög vel. Þú þarft ekki annað en að fara á Youtube til að sjá upptökur af því hvað múslimar eru að gera. Þeir eru ekkert að fela það.
Íslam eru ekki trúarbrögð heldur klerkaveldi þar sem trú, lögum, stjórnmálum og rekstri samfélags er öllu hrært saman og kallað Nation of Islam.

Þeir taka Evrópu í gegnum börnin.

Þeir flytja til landsins en að aðlagast er aldrei til í dæminu, að fara eftir lögum landsins er aldrei til í dæminu því kóraninn eru þeirra lög. Síðan eignast þeir eins mörg börn og þeir geta. Eftir eina eða tvær kynslóðir, eins og við sáum að gerðist í Danmörku og á fleiri stöðum, byrja þeir að gjamma. Þeir sem vilja þessa þróun, verði þeim að góðu, ég mun aldrei þiggja hana.

Það er ekki rasismi sjáðu til. Ég er búinn að ferðast sem sjómaður til sextán landa víðs vegar um heiminn. Ég hef séð þetta víða. Þú ert ekki að tala við einhvern afdaladreng sem hefur aldrei farið út fyrir hreppinn. En ef maður er ekki sammála political correct-leikskólanum þá er maður annað hvort kallaður rasisti eða sagður fordómafullur. En fordómar þýða vanþekking og ég passa mig á því að ræða ekki hluti sem ég hef ekki hundsvit á.“

Mynd: Facebook
 
Mynd: Facebook
Mynd: Facebook

Grunngildi íslam

Arabíska orðið íslam merkir friður, undirgefni og hlýðni. Íslam er í grundvallaratriðum sami boðskapur og leiðsögn og guðdómurinn opinberaði öllum spámönnum sínum.

1    Íslam hefur fimm burðarstoðir:

    Trúarjátningu.
    Bænir sem hreinsa hjartað og hindra freistingar til ranginda og illgjörða.
    Ölmusa til fátækra og hjálparþurfi.
    Fasta í Ramadanmánuði.
    Pílagrímsferð til Mekka einu sinni á ævinni ef fjárhagur og heilsa leyfa.

2   Íslam boðar trú á einn og almáttugan Guð.

Að trúa á einn Guð felur í sér að litið er á mannkyn allt sem eina fjölskyldu. Íslam hafnar hugmyndum um útvaldar þjóðir, aðeins guðstrú og góð breytni veita aðgang að Paradís.

3    Fyrirgefning. 

Þeir sem fylgja sannleika og réttlæti fá laun, en þeir sem aðhyllast lygar og ranglæti fá refsingu. Hver sem leitar fyrirgefningar Guðs af einlægni getur byrjað nýtt líf. 

4    Friðhelgi manneskjunnar. 

Maðurinn er kórónan á sköpunarverki Guðs. Honum hefur verið fengið visst frelsi til ákvarðana, athafna og vals. Íslam boðar friðhelgi manneskjunnar og veitir öllum jafnan rétt án tillits til kynþáttar, kynferðis eða húðlitar.

5    Kóraninn. 

Kóraninn er síðasta opinberun Guðs og grundvöllur íslamskra kenninga og laga. Kóraninn minnir á tilgang mannlífsins á jörðinni, skyldur mannsins og kvaðir gagnvart sjálfum sér, ættingjum sínum og vinum, samfélaginu, meðbræðrum og skapara sínum.

Mynd: Shutterstock

Algengar rang­hugmyndir um íslam

Sverrir Agnarsson, formaður félags múslima á Íslandi, svarar algengum ranghugmyndum sem haldið er á lofti um íslam.

Heiðursmorð

Kynbundið ofbeldi er vandamál alls heimsins. Samkvæmt U.N. Population Fund eru um 5.000 konur drepnar af fjölskyldu sinni á ári, meðal annars í Bandaríkjunum. Árið 2010 voru 8.391 drepnar í Indlandi vegna heimanmundar. Heiðursmorð eru alvarlegt vandamál en það er ekki vandamál múslima og á sér enga stoð í íslam. Það er ekkert um grýtingar eða heiðursmorð í Kóraninum. Morð er morð, ekkert annað.

Segjum að múslimar hafi framið öll þessi 5.000 morð, og látum vera að hluti þessara morða voru framin af öðrum, til dæmis á Indlandi og í Bandaríkjunum. Það þýðir að af hverri milljón múslima eru 3,2 konur drepnar af fjölskyldunni. Samkvæmt FBI Expanded Homicide Data voru 930 konur drepnar af fjölskyldunni í Bandaríkjunum, sem þýðir að af hverri milljón Bandaríkjamanna var 3,1 kona drepin af fjölskyldunni.

Kvennakúgun og kvennamorð er alþjóðlegt vandamál.

Umskurður kvenna

Umskurður kvenna tengist ekki íslam og gengur gegn gildum íslam. Í Nígeríu, fjölmennasta ríki Afríku, er umskurður hlutfallslega algengari meðal kristinna en múslima. Það á einnig við víðar, svo sem í Egyptalandi. Umskurður er ekki stundaður í Sádi-Arabíu eða Afghan­istan sem eru alræmd fyrir kúgun á konum.

Sharíalög

Aðeins á svæðum þar sem öfgamenn hafa komist til valda eru Sharíalög forn og grimmileg. Víðast hvar voru Sharíalög aflögð á nýlendutímanum, en tekin aftur upp nokkrum hundruð árum síðar. Mismunandi lagaskólar eru í íslam og þótt almennur skilningur sé sameiginlegur eru samt þúsundir ólíkra viðhorfa til boða, banna og refsinga.

Margir halda að Sharíalög séu fyrirmæli úr Kóraninum um að það eigi að grýta konur til bana og að mönnum leyfist að drepa fjölskyldumeðlimi sem hegða sér ekki eftir þeim hefðum sem ríkja. Þetta er af og frá.

Ekkert í Kóraninum hvetur til ofbeldis gegn konum eða talar gegn mannréttindum og ekkert réttlætir heiðursmorð, nauðungarhjónabönd eða barnabrúðkaup.

Limlestingar

Fá lög koma beint úr Kóraninum en að höggva hendi af þjófi er eitt þeirra, en í öllum trúarritum eru hugtökin hendi, augu og andlit notuð táknrænt. Í fjallræðunni segir Jesús mönnum að rífa úr sér hægra augað ef þeir líti konu girndarauga og sníða af sér hægri höndina ef þeim verður á að brjóta af sér.

Dómarar á miðöldum beittu örsjaldan aflimun sem refsingu, en meðal ofstækismanna geta aflimanir verið þáttur í Sharíalögum en mikill minnihluti múslíma er öfgasinnaður.

Andi Kóransins er fyrirgefning og málið er að fá þjófa eins og aðra misgjörðamenn að iðrast og þá er fyrirgefning skylda allra múslíma. Að höggva af hendi, þýðir að hindra þjófinn í að halda áfram.

Málið er að harðstjórar finna sér alltaf yfirskin til óhóflegra refsinga.

Kvennakúgun

Að sjálfsögðu nota karlrembusamfélög öll ráð, og þar með trúna, til að réttlæta hegðun sína. Í löndum múslíma er ástandið líklega verst í Afghanistan.

Afghanir fylgja ævafornum siðvenjum, Pustuvali, sem er miklu eldri en Kóraninn og þar eru engin kvennréttindi. Það væri hægt að bæta stöðu kvenna með því að benda á það sem Kóraninn segir raunverulega um stöðu kvenna.

Engin raunsæ túlkun á Kóraninum getur mælt kvennakúgun bót. 

Mynd: Facebook
 
Mynd: Facebook
Launaður undirróðsmaður
Launaður undirróðsmaður Sverrir hefur ákveðið að kæra þessi ummæli og fleiri sem voru viðhöfð á Facebook, þar sem hann var sagður þiggja fé frá aðilum sem styðja við Isis.

Ætlar að kæra ærumeiðingarnar 

Kærir ummælin
Kærir ummælin Sverrir hefur ákveðið að höfða mál gegn manni sem sakar hann um landráð og segir hann vera á launum hjá sömu aðilum og styðja Isis. Mynd: Facebook

Sverrir Agnarsson fermdist sem sannkristinn drengur og vel lesinn um trú sína. Eftir því sem leið á unglingsárin missti hann áhuga á trúnni og fór að kynna sér önnur trúarbrögð. Það var svo í  Pakistan sem hann kynntist íslam, en hann er nú formaður Félags múslima.

Áður hafði Sverrir verið á Spáni þar sem hann þjálfaði hesta í Almera. Hópurinn sem þar var ákvað síðan að hittast aftur ári síðar í Istanbul og fara saman til Himalaya á hestbaki. Sverrir var sá eini sem mætti en hann varði næstu mánuðum ríðandi um Afghanistan, Pakistan og Kína. „Ég keypti mér hest í Peshawar og reið upp í Norður-Pakistan. Fyrsti áfangastaðurinn var Mingora, þaðan sem Malala, nóbelsverðlaunahafinn, er. Leiðin lá norðar og í raun vissi ég aldrei hvort ég væri í Pakistan eða Afghanistan.“

Ferðin hafði mikil og djúpstæð áhrif á Sverri, sem fór að lokum alla leið upp í Himalaya. „Þetta var eins og að koma vestur í dali þar sem allir taka vel á móti þér, sauðfjárræktarfólk með byssuna í forstofunni eins og frændi á Skarði.

Þetta voru sanntrúaðir múslimar og ég heyrði bænakallið og þetta einhvern veginn síaðist inn í mig.

Ég lýsi því þannig að ég hafi eignast fljúgandi teppi og hafi ekki séð neina ástæðu til þess að skila því,“ en Sverrir varð fyrir einhvers konar andlegri vakningu í ferðinni og tók trúna.

Sakaður um stuðning við Isis

Þetta var árið 1972. Þegar hann sneri aftur heim til Íslands kippti enginn sér upp við það að hann væri orðinn múslimi. Það þótti ekkert tiltökumál. Viðhorfin áttu hins vegar eftir að breytast og í dag mæta múslimar á Íslandi fordómum vegna trúar sinnar.

Sverrir segist bæði verða var við það á Facebook og eins fái hann reglulega einkaskilaboð með allskyns „viðbjóði og hótunum“. Nú hefur hann ákveðið að kæra ummæli sem voru látin falla á opnum vegg sagnfræðings á Facebook.

„Í umræðunni eru menn að ljúga upp á mig stuðningi við Isis, að ég sé landráðamaður og þiggi fé erlendis frá, sé á launum við að eyðileggja menningu þjóðarinnar. Sá sem hótar því að brenna moskuna og meiða alla sem hann kallar kuflaklæðskiptinga, sem ég geri ráð fyrir að séu múslimar sem ganga um í síðum fötum, er verkfræðingur.

Sá sem hefur látið verst með það að ég sé stuðningsmaður Isis og landráðamaður er líka verkfræðingur og býr í Garðabæ.

Það er rosalega oft sama fólkið sem rekur þennan áróður en það kemur alltaf einn og einn nýr inn. Svo sér maður það bergmála um alla Facebook þegar einhver segir svona hluti. Einn hélt því fram og heldur því ennþá fram að hann hafi heyrt það eftir mér í útvarpinu að ég sé stuðningsmaður Isis og hvetji fólk til að fara út að berjast með þeim. Þetta dreifist um netið og ég veit ekki hvaða varnir ég hef við því.“

Sverrir segir að með tímanum hafi hann komið sér upp tiltölulega þykkum skráp. Ef menn vilja bulla verði þeir að standa og falla með því. En nú sé nóg komið. „Ég er ekki kæruglaður maður en ákvað að kæra þennan mann, sem heldur því fram að ég sé landráðamaður á launum hjá sömu öflum og styðja Isis, við að breiða út ofbeldi og hryðjuverk á Íslandi. Það er enginn fótur fyrir þessu en samt kemur þetta upp aftur og aftur. Þess vegna hef ég ákveðið að kæra þessi ummæli og fá þau dæmd dauð og ómerk.“

Varð skotspónn

Sverrir segir að í hvert sinn sem hann komi fram í fjölmiðlum dynji á honum formælingarnar. „Sumarið 2012 fékk ég nóg þegar ég kom heim frá Danmörku og hitti gamla frænku sem talaði um það hvað þetta væri hrikalegt með múslimana og spurði hvort það væri ekki skylda þeirra að nauðga eigin dætrum. Þá ákvað að ég að fara að svara þessum ranghugmyndum og hef síðan reynt að svara þessum ávirðingum, sem byggja yfirleitt á fordómum og útúrsnúningum. Um leið og ég byrjaði að beita mér fyrir því varð ég skotspónn.

Eins hef ég verið í forsvari fyrir moskunni og því fylgir áreiti.

Um leið og ég kem fram í fjölmiðlum fæ ég holskefluna yfir mig. Það gerist alltaf. Alltaf þetta skítkast.

Þetta gerir það að verkum að fólk vill ekki koma fram í fjölmiðlum og ræða íslam. Það er mjög erfitt að finna fólk til þess að taka þátt í opinberri umræðu, því fólk hefur reynslu af því að börnin lenda í vandræðum í skólanum þegar foreldrar þeirra tjá sig opinberlega.“

Skrímslavæðing múslima 

Í fyrsta sinn sem Sverrir fann fyrir einhvers konar andúð var árið 1976. Þá var ástæðan reyndar ekki trú heldur hækkandi bensínverð. Sverrir hafði verið tvö ár í Líbíú og þrjú í Norður-Afríku, þegar hann kom skyndilega heim og átti ekkert nema arabískan kufl sem hann klæddist á götum borgarinnar. „Þá var hrækt á mig, tvisvar,“ segir hann. Arabar voru fallnir í ónáð vegna bensínverðsins og fólk tók það út á honum.

Það var síðan upp úr 1997 sem Sverrir fór fyrst að finna fyrir viðhorfsbreytingu gagnvart íslam. „Þá fóru menn að flytja inn efni af haturssíðum gegn múslimum. Þetta efni er að miklu leyti rakið til manns sem heitir David Horowitz. Hann styður einnig fólk eins og Robert Spencer og Pamellu Geller og fleiri þekkta ísmala­fóbista.

Svo skrifa þeir bækur og fara um Bandaríkin með fyrirlestra og hræða fólk með íslam og fá í staðinn fjárframlög, styrki og peningagjafir.

Þetta er orðinn stór iðnaður í Bandaríkjunum sem veltir milljónum dollara á ári og gerir út á óttann. 

Öllu er snúið við, slitið úr samhengi og gert tortryggilegt. Menn græða peninga á því að breiða út ótta og selja lausnir við honum.

Ef þér tekst að skrímslavæða íbúa Gasa í gegnum Hamas þá er allt í lagi að þú drepir 3.000 börn. Ef þér tekst að skrímslavæða Íraka þá er í lagi að henda þeim í Abu Ghraib og pynta þá í bak og fyrir.“

Gegn íslam að umskera konur

Hér á landi höfum við það sem Sverrir kallar innflytjendurna, sem hann segir að séu oft karlar um sjötugt sem stíga allt í einu fram á ritvöllinn og telja sig sérfróða um íslam. „Yfirleitt vita þessir karlar ekkert um málefnið heldur þýða efni beint upp úr þessum haturssíðum og aðrir pikka það upp þaðan.

Einn sendi þetta efni á póstlista sem hann hafði komið sér upp og innihélt alþingismenn, kennara, kirkjuþjóna og blaðamenn.

Þannig dreifði hann áróðrinum og mikið af þessu rataði í blöðin í gegnum hann. Fólk tók þetta beint upp sem fréttir, þannig að óhæfuverk múslima voru alltaf rakin í fjölmiðlum en það sama átti ekki endilega við um óhæfuverk annarra.“

Oft hefur umræðan farið fyrir brjóstið á Sverri en hann segir ekki hægt að láta þetta trufla sig endalaust, þetta sé alltaf sama efnið og löngu búið að svara því. Barnaníð, heiðursmorð og umskurður kvenna, séu endurtekin stef í umræðunni um íslam, en hafi ekkert með trúna að gera.

„Ef þú skoðar stærstu ríkin í Afríku, Egyptaland og Nígeríu þar sem umskurður er stundaður af bæði kristnum og múslimum, er hann hlutfallslega meiri á meðal kristinna. Af því að mig hryllir við þessum sið, pirrar það mig hvað það er erfitt að berjast gegn þessu þegar þetta er stöðugt notað til að skrímslavæða múslima, í stað þess að taka á vandamálinu. Það þarf að vinna skipulega gegn þessu og það hjálpar engum að skrifa þetta á íslam og úthúða múslimum. Það gengur gegn kóraninum og öllum siðaboðskap íslam að gera svona.“ 

Óttast um Ísland
Óttast um Ísland Viðmælendur Stundarinnar sem eru meðlimir í Mótmælum mosku óttast að múslimar muni taka yfir Ísland.

Öfgarnir eru víða

Engu að síður er þetta reglulegt umræðuefni í Facebook-hópum gegn múslimum á Íslandi. Nokkrir slíkir hópar virðast vera á Facebook, bæði opnir og lokaðir, þeirra á meðal leynilegur hópur er nefnist Mótmælum mosku á Íslandi, þar sam frásögnum og myndböndum af ódæðisverkum múslima víðs vegar um heiminn er deilt með ofbeldisfullum athugasemdum. „Skera þetta á háls aftan frá með bitlausum hníf. Skíta svo í strjúpann og staursetja hausinn,“ skrifaði einn.

Sverrir verður orðlaus þegar blaðamaður fer með honum í gegnum nokkur ummæli sem voru látin falla í þessum hópi. „Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja.

Ef það væri mín trúarlega skylda að giftast smábörnum eða fremja heiðursmorð væri ég brjálaður út í múslima. Þá væri ég aldrei múslimi.

En þetta er ekki rétt. Þetta hefur ekkert með trúarbrögðin að gera.“

Honum er bent á myndband þar sem klerkur lemur lítinn dreng í mosku og áhorfendur sitja aðgerðarlausir hjá. „Að lemja lítil börn kemur íslam ekkert við. Það er harðbannað. Það er alltaf hægt að finna eitthvað ljótt,“ segir Sverrir. „Þú veist hvernig Jay Leno vinnur þegar hann er með þetta götuspjall. Hann tekur kannski 300 viðtöl, þrjú þeirra eru fáránleg og hann birtir þau. 

Í Bretlandi eru öfgahópar múslima í kringum Anjem Choudary. En þú finnur svona öfgaklerka víða. Í miðvesturríkjum Bandaríkjanna eru hægt að finna menn sem vilja henda kjarnorkusprengjum á múslima.“

Sverrir bendir á myndband frá Lúton sem var deilt í þessum hópi, þar sem múslimar koma saman og krefjast sharia-laga. „Þetta er úr heimildar­mynd um öfgahópa frá Lúton. Síðan er þessi fámenni öfgahópur múslima sýndur sem dæmigerður hópur múslima, sem hann er alls ekki. Þetta eru ekkert nema útúrsnúningar og áróður og þróunin er þannig að með tilkomu Facebook hafa fleiri vitfirringar færi á því að koma fram með sínar skoðanir og allt sitt eitur.“

Mynd: Facebook
 
Mynd: Facebook
 
Mynd: Facebook
 
Mynd: Facebook
 
Mynd: Facebook

Ný-rasismi áberandi­ í umræðunni

Rasisminn aðlagast
Rasisminn aðlagast Berglind skrifaði BA-ritgerð í stjórnmálafræði um ný-rasisma, þar sem sjónum fólks er beint að menningu en ekki kynþætti, líkt og gert er með múslima. Mynd: Eyþór Árnason

Ný-rasismi var umfjöllunarefni BA-ritgerðar Berglindar Eygló Jónsdóttur í stjórnmálafræði. Hún segir að það sé erfitt að átta sig á því hvað rasismi hafi breyst mikið þegar maður lifir og hrærist í þessari orðræðu. 

Rasismi í dag sé hins vegar mjög ólíkur því sem áður var, þegar áherslan var á líffræðilegan mun eins og húðlit. „Það er margbúið að sýna fram á að mannkynið skiptist ekki upp í ólíka líffræðilega kynþætti þannig að það er ekki ásættanlegur málflutningur í dag að tala um líffræðilegan eða útlitslegan mun á fólki. Rasisminn hefur aðlagast þessu. Í dag er bent á menningarlegan mun milli hópa og trúarbragða.

Eins og einhver hugmynd um menningu ákveðins hóps sé honum eðlislæg og þar með einstaklingum sem tilheyra þeim hópi. 

Það sem einkennir þessa umræðu er að munurinn á þessum hópi er dreginn fram og síðan eru einstaklingarnir dæmdir út frá þeim hópi sem þeir eru taldir tilheyra. Alveg eins og í klassískum kynþáttarasisma, er bent á einstakling, sagt að hann tilheyri þessum hópi og þar af leiðandi sé hann svona.“

Afneita vilja einstaklingsins

Í þessari orðræðu má alltaf greina upphafningu á einum hópi fram yfir annan og því fylgir að þessir ólíku menningarhópar eigi ekki samleið. 

Oft er bent á það sem miður fer í löndum þar sem íslam er sterkt, eins og mannréttindi. „Það er alveg hægt að gagnrýna siði og gildi sem brjóta gegn mannréttindum án þess að vera sekur um ný-rasisma, en þá þarf gagnrýnin að beinast að gjörðum einstaklinga út frá þeim forsendum að þeir hafi val og skoðanir.

Það er svo erfitt að skilgreina eina menningu og fella alla einstaklinga sem tilheyra ákveðinni trú undir eina skilgreiningu.

Menning er ekki óbreytanlegt hlutlægt fyrir­bæri. Menning breytist og þróast og er ólík á milli einstaklinga, hópa og landa.

Margir Vesturlandabúa telja sig frjálsa og ekki eins bundna af sinni menningu og aðrir hópar, hvað þá múslimar sem oft er talið að séu fastir í viðjum sinnar menningar og hafi minna val en Vesturlandabúar í sinni hegðun.“

Rannsóknir hunsaðar með dæmum

Þegar hún var að skrifa ritgerðina las hún mikið af bókum og bloggsvæðum þar sem rök voru færð fyrir því að við Íslendingar – eða Norðmenn, eða hverjir sem það voru – og múslimar séum svo ólík að við eigum ekki saman. „Það var mjög áberandi að dæmi væru tekin um einstaklinga sem fremja glæpi eða aðlagast illa að samfélaginu eða það sem er ólíkt. Þetta voru algeng rök fyrir því að þessi sambúð gæti ekki gengið vel.“

Ekki var stuðst við rannsóknir. „Rannsóknir sýna fram á að það er miklu meira sameiginlegt en ólíkt á meðal kristinna og múslima.

Það var hunsað með því að draga fram þessi dæmi; Ég þekki mann sem lenti í því að... eitthvað. Þetta var mjög áberandi. 

Ef maður bendir á að rannsóknir sýni að langflestir múslimar séu á móti svona hegðun eða að Íslendingar séu í meirihluta þeirra sem fremja svona glæpi þá fær maður senda frétt af einhverjum sem gerði eitthvað og þá á umræðunni að vera lokið, út af þessu eina dæmi.

Svo veit maður ekkert hvað er að marka þessar fréttir. Oft er þetta kallað frétt, en kemur af bloggsíðu eða af síðu sem er rekin af hópi fólks sem er mjög áhugasamt um svona atvik og safnar saman fréttum þar sem tekið er fram að múslimi hafi gert eitthvað athugavert. 

Það er til svo mikið af svoleiðis efni að maður spyr sig hvort þetta sé virkilega svona sterk hugmyndafræði eða hvort einhverjir aðrir hagsmunir séu að baki þessum mikla áróðri.“ 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.